# Nafnalaus frásögn
Fótbolti
Ég hef spilað í meistaraflokki kvenna í fótbolta í um 10 ár núna og hafa þjálfararnir sem ég hef haft verið mjög misjafnir.
Að þjálfa okkur eða smíða pall/þvo þvott?
Þegar ég steig mín fyrstu skref þá var sami aðalþjálfari fyrir meistaraflokk kvenna og karla. Það var samt svo augljóst hvað hann valdi strákana alltaf fram yfir okkur. Hann var frekar á æfingum hjá þeim ef það var æfing á sama tíma. Aðstoðarþjálfarinn var látinn sjá um okkur.
Í miðjum leik fór hann inn til þess að fá sér kaffibolla í staðinn fyrir að stjórna liðinu úti á velli. Þegar við vorum á æfingu einum eða tveim dögum fyrir leik var hann í staðinn heima hjá sér að byggja pall. Mér leið eins og að við værum bara ekkert merkilegar.
Annar meistaraflokks þjálfari sem við vorum með lét fyrirliðann stundum vera með æfingar vegna þess að hann þurfti að setja í nokkrar þvottavélar heima hjá sér. Enn annar þjálfari sem við fengum var líka yfirþjálfari yngri flokkanna. Það kom mjög oft fyrir að fyrirliðin sá um æfingarnar. Æfingatímarnir voru oft á hræðilegum tímum vegna þess að þjálfarinn var að þjálfa aðra á betri tímum eða með leiki. Þetta kom meira að segja fyrir daginn fyrir leik eða á leikdegi.
Æfingatímar
Við höfum alltaf þurft að víkja fyrir meistaraflokki karla með æfingatímana – þurftum að berjast fyrir betri tímum – og oft þurftum við að æfa á sama tíma og yngri flokkar. Það hefur lengi verið regla að báðir meistaraflokkarnir megi æfa á aðalvellinum daginn fyrir leik. Eitt sumarið var það heldur betur ekki þannig . Strákarnir æfðu þremur til einum degi fyrir leik og við fengum ekki einu sinni æfingu á aðalvellinum.
Umgjörð og aðstaða
Við höfum alltaf þurft að hjálpa til á leikjum hjá meistaraflokki karla. Það var útbúið exel skjal þar sem við áttum að skrá okkur. Aldrei sá maður leikmenn meistaraflokks karla að vinna á leikjunum hjá okkur einungis leikmenn úr 2. og 3. flokki karla.
Fókusinn á karlaliðið eftir að þeir féllu
Eitt sumarið þegar karlaliðið féll niður um deild. Þá fékk ég að heyra það frá leikmanni karlaliðsins að núna myndi stjórnin bara einbeita sér að karlaliðinu. Það þyrfti að koma því aftur upp um deild. Að núna þyrfti kvennaliðið ekkert fjármagn eða fleiri og nýja leikmenn, vegna þess að við værum bara á góðum stað í okkar deild.
Stuttu seinna hættir þjálfarinn okkar, sem allir voru ánægðir með og vildu hafa áfram. Hann kom okkur á góðann stað en í staðinn var ráðinn óreyndur þjálfari sem leiddi til þess að við féllum sumarið eftir. Ekkert extra púður var sett í það að koma okkur aftur upp um deild, og það fyndna er að karlaliðið hefur ekki ennþá komist upp og voru nálægt því að falla niður í lægri deild. Það sem mér finnst samt svo brenglað er að leikmenn karlaliðsins finnist þetta bara allt í lagi, að þér trúi í alvörunni að þeir séu mikilvægari heldur en við.