Dómari stoppar mig í miðri upphitun

# Nafnalaus frásögn

Körfubolti 2018

Maður þekkir marga í kring um sig sem hafa lent í svipuðu og ég las um á vefnum þínum. Ég tengdi við flokkinn óviðeigandi samskipti. 

Ég er 19 ára á þessum tíma þar sem ég er á venslasamning. Þar spila ég í tveim liðum í sitthvorri deildinni. Í öðru liðinu mæti ég meidd í leik á bekkinn. Dómari kemur upp að mér sem ég þekki ekki. Hann byrjar að spjalla við mig almennt og um körfubolta.

Ég vildi frekar vera að hita upp en dómari leiksins er að tala við mig

Viku seinna spila ég með hinu liðinu. Sami dómari og talaði við mig er að dæma leikinn. Ég er að hita upp og er í röðinni í drillu. Þessi dómari stoppar mig í upphitun og byrjar að spjalla við mig. 

“Hvernig ertu búin að hafa það?”

“Ertu búin að jafna þig á meiðslunum?”

Ég vildi frekar vera að hita upp, en dómari leiksins stoppaði mig svo ég svaraði spurningum hans. Ég vissi ekki hvernig hann mundi taka því ef ég segðist vilja halda áfram að hita upp. Hvort hann myndi dæma leikinn öðruvísi svo ég svaraði spurningum hans. Hann truflar mig mikið fyrir leikinn. Stelpurnar í liðinu mínu tóku eftir þessu. Mér fannst þetta skrítið. 

Nokkrum dögum seinna fæ ég send skilaboð frá dómaranum “hæ”. Mörgum dögum seinna svara ég honum og sendi létt hæ til baka.

Hann spyr: “Hvað segir þú gott?”.

Ég svara: “Ég hef það bara fínt”.

Næsta spurnig frá honum er hvort hann megi adda mér á Facebook. Ég sleppi að opna skilaboðin og svara aldrei. Hann dæmir ennþá leiki hjá mér í dag og mér þykir það óþægilegt. Hann er á fertugsaldri á þessum tíma. 

Mér finnst að dómarar eigi ekki að vera tala við mann á samfélagsmiðlum.