# Nafnlaus frásögn
Fótbolti – 2017/18.
Ég spilaði í sameinuðu liði tveggja félaga svo það voru tvö karlalið. Það var mun minni umgjörð hjá okkur í kvennaliðinu heldur en karlamegin hjá báðum liðum.
Varðandi félagið mitt sem ég spilaði með öðrum megin þá fengu strákarnir alltaf mun betri æfingatíma. Völlurinn var alltaf lokaður frá hádegi þegar það var leikdagur hjá strákunum en það voru æfingar hjá yngri flokkunum nánast þangað til við byrjuðum að hita upp á leikdegi hjá okkur.
Varðandi æfingatímana þá vorum við lengi búnar að berjast fyrir því að skipta um æfingatíma við strákana á föstudögum. Við vorum alltaf klukkan 18-19 en þeir 17-18 og því var alltaf lofað seinna myndum við skipta en það var aldrei staðið við það. Það endaði á því að við fengum morgunæfingar á föstudögum í staðinn fyrir 17-18 æfingartímann. Strákarnir héldu sínum tímum áfram á föstudögum.
Það var aldrei hægt að koma til móts við okkur þó við værum að spila í Pepsi deildinni en þeir í 1.deildinni (í öðru félaginu).
Varðandi hjá hinu félaginu sem við vorum sameinuð þá deildum við klefa með handboltaliðinu. Þegar handboltinn byrjaði alveg á haustinn þá var okkur bara hent út og fengum rétt svo að nota klefann í leiki. Við fengum mun færri föt en strákarnir og alltaf mun verri æfingatíma á grasinu, við þurftum alltaf að lúffa fyrir strákunum.