# Nafnlaus frásögn
Körfubolti – 2016/2019
Ég hef tvisvar lent í því á ferlinum (sem er tvisvar of mikið) að liðið mitt í úrvalsdeild er dregið úr keppni. Liðið mitt 2016 var dregið úr keppni. Ástæðan þá var leikmannaskortur. Þetta var landsbyggðarlið og erfiðlega gekk að fá leikmenn auk þess sem kjarninn af liðinu urðu óléttar eða nýbúnar að eiga börn á þessum tíma. Ýmislegt var reynt, m.a. að sameinast öðru liði sem gekk ekki og því fór sem fór. Þá fór ég yfir í annað lið í úrvalsdeild og spilaði með þeim í þrjú ár eða þangað til þeir drógu liðið úr keppni. Það var gert án þess að tala við leikmenn en stjórnin tók þessa ákvörðun í einhverju bræðiskasti. Það voru alveg leikmenn í liðinu og hefði ekki verið vandamál að fá nokkrar nýjar þar sem þetta lið var á höfuðborgarsvæðinu. Ætlunin var að hafa liðið í 1. deild en okkur fannst þetta óréttlátt og við vildum ekki spila í 1. deild á þessum forsendum og því varð ekkert lið.