Ekki metnar sömu verðleikum

# Nafnlaus frásögn

Fótbolti – 2007-2016

Við höfum ævinlega þurft að berjast fyrir því að fá að spila fótbolta í liðinu mínu. Það hefur ekkert verið gefins og höfum við unnið fyrir öllu sjálfar með hjálp frábærra sjálfboðaliða og stjórnar í gegnum árin. Margt hefur verið ósanngjarnt eins og að fá lakari æfingatíma eða afgangs æfingatíma þegar strákarnir fá besta og hentugasta æfingatímann. Strákarnir fengu ævinlega betra æfingasvæði og fengu oftar að æfa á keppnisvellinum. Það var wifi rúta sem liðin höfðum aðgang að EN þegar bæði lið þurftu að leggja af stað suður í rútu þá fengu strákarnir ÆVINLEGA betri rútuna. Strákarnir þurfa ekki að þrífa íbúðir allan ársins hring, fara í vörutalningar, selja klósettpappír og fleira til að halda uppi liðinu sínu. 

Þeir fengu borgað fyrir að spila fótbolta á meðan við fengum það ekki nema kannski útlendingarnir. Sem dæmi einhver leikmaður sem var á bekknum fékk pening fyrir að vera í hóp á meðan besti leikmaður kvennaliðsins sem spilaði allar mínútúr fékk ekki krónu. 

Strákarnir fengu ávalt nýja æfingabolta og við fengum oft bara þeirra afganga til dæmis en það er ekki svoleiðis lengur veit ég. Það var alltaf komið fram líkt og við værum ekki eins mikilvægar og strákarnir, jújú þetta er bara svona og við þurfum bara að sætta okkur við það. Það er glatað að vera ekki metnar sömu verðleikum í íþróttinni og aðrar manneskjur bara af því að þær eru með lilla á milli lappanna. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan þetta var eins slæmt og ég lýsi hér að ofan þó að sumt sé örugglega smá eins. Við erum í raun okkar eigið félag. Við söfnum okkar eigin pening og styrkjum og höfum alltaf þurft að gera það. 

Einnig varðandi fréttaflutning. Hér áður fyrr var eiginlega aldrei neitt fjallað um kvennafótbolta, hvorki í íþróttafréttum né í blöðunum og við höfum alltaf barist þvílíkt fyrir því að fá umfjöllun. En það hefur skánað mikið síðustu ár.

Við þurftum alltaf að víkja fyrir strákunum, prinsarnir þurftu alltaf að fá það besta og alltaf vorum það við sem þurftum að víkja. Þegar karlaleikir voru þá var alltaf breytt æfingatíma og við máttum ekki vera á æfingu á sama tíma og leikir voru hjá þeim. Þegar við vorum að keppa þá voru þeir á æfingu á æfingablettinum við hliðin á keppnisvellinum. Og voru svo að labba inn í sturtuklefann þegar leikur var í gangi. Það er fáránlegt.