Kvennaliðinu misboðið – Ósambærileg meðferð

# Nafnlaus frásögn

Handbolti – 2018 

Óvænt óveður

Eitt það eftirminnilegasta sem ég hef lent í sambandi við kynjamisrétti í handbolta var þegar bæði meistaraflokkur karla og kvenna kepptu út á landi sama dag. Við stelpurnar spiluðum á Akureyri og strákarnir í Vestmannaeyjum. Við fórum snemma af stað með rútu. Eftir um fimm tíma ferðalag vorum við komnar. Leikurinn okkar kláraðist seint um kvöld. Öllum var sagt að drífa sig í sturtu og hoppa upp í rútu. Það var stoppað í sjoppu á Akureyri og keyptum við okkur samlokur fyrir okkar pening.

Hættuleg ferð til Reykjavíkur

Rútan lagði af stað en það var óveður, nánast ófært. Við vorum hræddar á leiðinni, rútan skautaði á götunum, það sást ekki út um gluggann. Allt var lokað á leiðinni, engin klósett nema að pissa úti í óveðrinu. Mér fannst ótrúlegt að ekkert hafi komið fyrir. En við þurftum að stoppa í Borgarnesi vegna þess að það var búið að loka öllum vegum til Reykjavíkur. Hræddar og þreyttar biðum við inn á Olís.

Ferð meistaraflokks karla

Ég ákvað að heyra í einum af strákunum. Þeirra ferð var á þessa leið: Þeir fóru í rútu og svo í flug til Vestmanneyja. Á áfangastað var þeim boðið að borða í boði liðsins. Leikurinn var spilaður, en vegna veðurs var ekki flogið til baka. Samt sem áður sigldi Herjólfur en þeir fengu að gista á hóteli yfir nóttinu í boði liðsins.

Ég átti að hætta að væla

Ég var mjög pirruð og reið að við hefðum ekki fengið sambærilega meðferð og hafði samband við mann í stjórn. Hann bókstaflega hló að mér og sagði “að þetta væri bara ævintýri fyrir okkur og ég ætti að hætta að VÆLA”.

Við vorum komnar í bæinn sjö um morguninn. Margar stelpur á leiðinni í skólann eða vinnu þrátt fyrir allt. Strákarnir vöknuðu á hótelherberginu sínu og fóru niður í morgunmat og svo upp í flugvél. Mér hefur aldrei verið jafn misboðið.