Aukaæfing á sunnudegi og þjálfari karlaliðsins bannaði mér það

# Nafnlaus frásögn

Körfubolti – 2018

Ég og kærasti fórum upp í hús að skjóta, á minn heimavöll, á sunnudegi. Kærastinn minn var í öðru liði í úrvalsdeildinni en ég bauð honum með mér. Þegar við mættum vorum við ansi “heppin” því húsið, sem átti ekki að vera opið, var þessa helgi notað í yngri-landsliðs æfingar. Ég var mjög hress yfir því að komast inn og hitti þar þjálfara mfl. karla sem var einmitt að þjálfa yngri landlið og var að fara nota aðal salinn. Ég segi við hann að ég færi þá bara í B-sal hússins. Þjálfarinn virtist ekki allt of ánægður með að kærasti minn væri með mér þarna (kærasti minn hafði hafnað tilboði um að koma í félagið stuttu áður). 

Þegar ég bið hann um að kveikja ljósin í B-salnum (og kærasti minn ekki með mér) þá fer hann að tala um þetta sé eiginlega ekki í lagi. Sem sagt að hann sé með mér þarna. Hann hafði ákveðið að samþykkja ekki boð um að koma í félagið o.s.frv. Ég var hissa á að hann skyldi ætla að taka þennan slag en ég var mjög hörð á mínu og þá fór þetta fljótt upp í einhver öskur á hans hálfu. Eitt leiddi að öðru og hann segir fyrir rest að ÉG megi ekki skjóta í húsinu. Ég er leikmaður í meistaraflokki kvenna, kem hérna til þess að æfa auka á sunnudegi og þjálfarinn ætlar að banna mér það. Allt í einu er ég frekja fyrir að “ætlast til” þess að það sé í lagi. Aðra eins vanvirðingu hef ég ekki upplifað áður. Ég lét stjórn vita af þessari hegðun og þetta mál var tekið fyrir. Þ.e.a.s. það var tekinn fundur með þjálfaranum og stjórn þar sem hann baðst afsökunar.