Fengu tilkynningu á facebook að liðið hefði verið lagt niður

#Nafnlaust frásögn 

Körfubolti – 2019

Ég spilaði tímabilið 2018-2019 í kvennaliði X sem hafði þá verið í mikilli baráttu í að halda körfubolta kvenna í gangi. Árið 2015 var fyrsta árið sem kvennalið X spilaði í efstu deild kvenna í körfubolta. Það var flottur hópur stúlkna sem tók sig saman og stofnaði liðið.

Liðið náði oddaleik í undarúrslitum

Tímabilið 2018-2019 spiluðum við til úrslita í bikarkeppni og náðum fram oddaleik í undanúrslitum fyrir Íslandsmeistaratitilinn. Í lok tímabils er það svo ljóst að ég hafði ákveðið að snúa heim í XX  og ein önnur ætlaði í nám erlendis. Við erum tvær stelpur sem hættum úr byrjunarliðinu.

Þjálfarinn staddur í æfingabúðum út á landi

Þá bregður stjórnin á það ráð að leggja niður meistaraflokk kvenna sem er algjörlega fáránlegt þar sem þetta gerist í júní 2019. Það er fullt af tíma til að ráða inn nýja leikmenn og halda betur í þá sem enn voru til staðar. Þjálfarinn okkar var með 3-5 stelpur sem voru til í að koma og höfðu mikinn áhuga. Þjálfarinn okkar vissi ekki af þessu en hann var staddur í æfingabúðum á Ísafirði og fékk ekki að sitja fundinn þar sem þessi ákvörðun var tekin. Við stelpurnar fengum tilkynningu á Facebook að búið væri að leggja niður liðið fyrir næsta tímabil tveim tímum áður en þetta fór í fjölmiðla.

Gríðarlegur launamunur

Þess má geta að jafnræðið var orðið mjög öflugt tímabilið 2018-2019 með allt, búninga, brúsa, utanumhald, mat og fleira. Launin voru þó gífurlega misjöfn milli meistaraflokks karla og kvenna. Þar gat einn leikmaður karlaliðsins verið með jafnmikið og allt liðið að meðtali þjálfara hjá kvennaliðinu. 

Til háborinnar skammar

Hér hefði mátt ræða við leikmenn og athuga stöðuna betur frekar en að leggja liðið niður. Það er til háborinnar skammar að félag á miðju höfuðborgarsvæðinu leggi lið niður.