A-landsliðsþjálfari: “Ég segi ykkur það ef þið komið með mér í threesome”

# Nafnlaus frásögn

Körfubolti 

Þjálfarinn reyndi við okkur

Ég og vinkona mín vorum að stíga okkar fyrstu skref í A landsliði kvenna, 18 ára gamlar. Það var grillveisla og liðið fer saman út á lífið ásamt þjálfara. Þjálfarinn króar okkur af út í horni og við förum að spjalla bara, allir hressir. Við spyrjum hann hvers vegna ein stúlka gefi ekki kost á sér í þetta skipti sem var mikilvægur hlekkur liðsins. Þjálfarinn lætur þetta út úr sér:

“Ég skal segja ykkur það ef þið komið í sleik við mig”

“Ég segi ykkur það ef þið komið með mér í threesome”

Gæti komið niður á tækifæri okkar í landsliðinu að segja frá

Við komumst ekkert, hann var blindfullur. Það er ekki fyrr en að erlendur leikmaður úr karladeildinni sér að við erum í vandræðum og hjálpar okkur út úr þessu.

Þetta atvik kom okkur í verulega opna skjöldu. Við vorum nýjar, ekki öruggar með okkar sæti í liðinu. Vegna atviksins vorum við með áhyggjur. Að vera með skæting gæti komið niður á tækifæri okkar í landsliðinu. 

Þjálfarinn rekinn vegna trúnaðarbrests

Eftir atvikið erum við kallaðar á fund upp í KKÍ. Þau segjast standa með okkur en þagga niður málið og sópa því undir borð. Þjálfarinn missti starfið eftir atvikið, en það var aldrei minnst á að þetta atvik hafi verið ástæðan fyrir uppsögninni. Það var talað um trúnaðarbrest.

Eftir uppsögnina fer hann að þjálfa annað kvenna félagslið. Þessi maður starfar í virtu starfi fyrir KKÍ í dag.

A-landsliðsþjálfari rekinn fyrir kynferðislega áreitni

KKÍ segir að engin mál hafi komið upp á borð hjá þeim tengda #metoo. Það er ekki satt, A-landsliðsþjálfari kvenna var rekinn fyrir kynferðislegt áreiti. KKÍ sópar því sem kemur upp undir borð.